Hljóðfæranám
Hljóðfæranám við Landakotsskóla skólaárið 2024-2025
Við Landakotsskóla er boðið upp á hljóðfæranám. Náminu er fyrst og fremst ætlað kynna nemendur á yngsta stigi fyrir hljóðfæraleik og vekja áhuga þeirra á tónlist og tónlistariðkun. Við Landakotsskóla er lögð áhersla á listir og skapandi starf og leitast er við að veita börnum sem flest tækifæri til að njóta lista í sínu daglega umhverfi.
Nemendum í 2. – 4. bekk stendur til boða að skrá sig í hljóðfæratíma í Landakotsskóla. Kennsla fer fram í einstaklingstímum á skólatíma og í hóptímum í frístund, en þar er stuðningur m.a. veittur við einstaklingsnám barnanna. Markmiðið með náminu er að sem flestir nemendur skólans kynnist hljóðfæranámi og að börnin læri saman með áhuga og gleði að leiðarljósi.
Einstaklingstímar á hljóðfæri
Í einstaklingstímum er tekið mið af þörfum barnanna og áhuga. Hverjum nemanda er mætt þar sem hann er staddur og námið sérsniðið. Lögð er áhersla á að spila eftir eyranu og að nemendur hafi ánægju og gleði af hljóðfæranáminu. Börnin velja sér hljóðfæri og er boðið upp á kennslu á hljómborð/píanó, fiðlu, ukulele og í söng með undirleik. Einstaklingstímarnir eru 20 mínútur á viku og skipulagðir á skólatíma.
Kennarar eru Dagný Arnalds, Silja Björk Baldursdóttir, Sólrún Gunnarsdóttir og Ösp Eldjárn
Annargjald er greitt fyrir einstaklingstímana að upphæð 72.000 kr. á haustönn og 90.000 kr. á vorönn. Upphæðinni er hægt að skipta í allt að 4 greiðslur á haustönn (4 x 18.000 kr.) og 5 greiðslur á vorönn (5 x 18.000 kr.).
Við bendum á að hægt er að nýta frístundakort Reykjavíkurborgar.
Hljóðfærahóptímar í frístund
Í hljóðfærahóptímunum sem eru skipulagðir á frístundartíma kynnast nemendur hljóðfærinu sem þeir völdu sér betur og læra einföld lög sem þau geta spilað saman í hóp. Börnin kynnast líka aðferðum í spuna og prófa að semja sína eigin tónlist sjálf og í hóp. Leitast er við að tengja námið við annað skólastarf og miðað er við að börnin spili reglulega fyrir bekkjarfélaga sína og á viðburðum á vegum skóla, s.s. á franskri hátíð og jólaskemmtun.
Í hóptímunum fá nemendur líka að kynnast ýmsum hljóðfærum sem til eru í skólanum. Þar á meðal eru slagverkshljóðfæri, ukulele og hljómborð. Kennsla fer fram verklega, í spuna, tónlistarflutningi og æfingum, í spjalli og samræðum og í gegnum leik. Einnig gefst nemendum kostur á þátttöku í smiðjum með áherslu á söng og undirleik á hljómahljóðfæri.
Miðað er við að hver nemandi sé a.m.k. 30 mínútur á viku í hljóðfærahóptímum á frístundartíma sem viðbót við einstaklingstímana en stundum eru æfingar fleiri, t.d. í tengslum við þemaverkefni og tónleika.
Kennarar eru Dagný Arnalds, Silja Björk Baldursdóttir, Sólrún Gunnarsdóttir og Ösp Eldjárn.
Verð fyrir hljóðfærahóptímana í frístund er 17.200 kr. á haustönn og 21.500 kr. á vorönn.
Gert er ráð fyrir að öll börn á frístundaraldri komist að í hljóðfæranámið, en takmarkaður fjöldi plássa er hins vegar í boði í hvert hljóðfæri fyrir sig. Reiknað er með að hljóðfæranemendur geti æft sig heima og því er mikilvægt að þeir hafi aðgang að hljóðfæri heima við.
Nemendur geta fengið fiðlur leigðar í Landakotsskóla. Hljóðfæraleigugjaldið er 8000 kr. á önn.
Kennarar:
Hljóðfærakennarar eru Dagný Arnalds (píanó, ukulele og tónsmiðja), Silja Björk Baldursdóttir (einstaklingstímar á píanó), Sólrún Gunnarsdóttir (fiðla, ukulele og tónsmiðja) og Ösp Eldjárn (söngur, ukulele og tónsmiðja).
Dagný Arnalds lauk píanókennaranámi frá Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 2002 og í kjölfarið diplómaprófi í skapandi tónlistarkennslu með áherslu á spuna árið 2004 í Frakklandi. Dagný starfaði í tvö ár við Iniciativas Musicales tónlistarskólann í Granada á Spáni og var lengi kennari og aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Dagný hefur einnig að baki nám í söng og kórstjórn og hefur starfað sem kórstjóri. Vorið 2023 lauk hún MA námi í Listkennslufræðum við Listaháskóla Íslands.
Silja Björk Baldursdóttir lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2000 sem og píanókennaraprófi. Einnig hefur hún lokið mastersnámi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands og þverfaglegri diplómagráðu frá sama skóla. Silja hefur starfað við rannsóknir en hefur einbeitt sér að tónlistarkennslu undanfarin ár. Hún leggur áherslu á sköpun, lestur hljóma og að spila eftir eyranu og nýtir tæknimiðla óspart við kennsluna. Hún hefur að leiðarljósi að nemendur verði sjálfbjarga þátttakendur í tónlist og geti spila lög líðandi stundar í bland við önnur lög sem staðist hafa tímans tönn. Þá kennir Silja nemendum sínum jafnframt að sýna sjálfum sér samkennd og mildi í eigin garð.
Sólrún Gunnarsdóttir lauk mastersnámi í fiðluleik frá Trinity College of Music. Hún hefur lokið réttindanámi í Suzuki fiðlukennslu. Sólrún hefur mikla reynslu af kennslu ungra barna og hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi þar sem hún spilar fjölbreytta tónistarstíla, allt frá klassík til þjóðlagatónlistar, djass, rokks og hip hops.
Ösp Eldjárn útskrifaðist með B.Ed gráðu frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2010 og var á sama tíma í söngnámi við tónlistarskóla FÍH, þaðan sem hún lauk miðprófi í jazz söng. Haustið 2011 fluttist Ösp til London og hóf nám við Inistitute of Contemporary Music Performance og útskrifaðist þaðan með B.A gráðu í Creative Musicianship. Ösp hefur starfað sem söngkona og lagahöfundur í fjölda ára, bæði hérlendis og í Bretlandi og er um þessar mundir í hljómsveitinni Blood Harmony sem hún stofnaði ásamt systkinum sínum. Ösp kennir tónmennt í alþjóðadeildinni og starfar einnig sem söngkennari í tónlistarskóla FÍH.