17. febrúar

Vetrarfrí

Ég minni á vetrarfríið næstkomandi föstudag og mánudag. Skólinn verður lokaður báða dagana.

Heimavinna

Ég er búinn að funda með kennurum yngsta stigs um eitt og annað varðandi námið. Við sjáum að mestar framfarir í lestri eru hjá þeim sem lesa reglulega heima og ég brýni enn og aftur fyrir foreldrum að láta börnin lesa daglega. Einungis með stöðugri æfingu verða þau hraðlæs og þá fylgir lesskilngurinn í kjölfarið. Við höfum jafnframt lestrarprófað alla upp í 7. bekk til að fá það staðfest að börnin hafi náð því marki sem við setjum. Í þeim tilvikum sem svo er ekki munum við hafa samráð við foreldra um aðgerðir til þess að bæta úr skák.

Með góðri kveðju,

Sölvi

10. febrúar

Tölvumál

Við erum þessa dagana að þreifa okkur áfram með regluverk fyrir tölvunotkun í skólanum enda koma sífellt fleiri nemendur nú með spjaldtölvu. Hvað segið þið um eftirfarandi hugmyndir?

Reglur um snjalltæki

Skólinn amast ekki við því að nemendur komi með síma eða spjaldtölvu í skólann ef þeir hafa aldur og þroska til þess að vera með slík tæki. Allir nemendur skólans eru fæddir eftir að farsímar urðu almenningseign og allir hafa þeir alist upp með tölvu eða tölvur á heimilinu, yfirliett í þráðlausri tengingu. Skólinn getur ekki verið einhvers konar órafrænt eyland í nútímasamfélagi, en við viljum að nemendur virði eftirtaldar reglur:

1)            Slökkt skal á farsímum og þeir geymdir í töskum í kennslustundum.

2)            Óheimilt er með öllu að taka upp hljóð/mynd í skólanum.

3)            Spjaldtölvur eru einungis ætlaðar til náms, alls ekki til leikja.

4)            Spjaldtölvur skulu vera í kennslustofum meðan nemendur eru úti í frímínútum.

5)            Nemendur skulu í hvívetna hlýða fyrirmælum starfsfólks um notkun snjalltækja.

Rökin fyrir þessum reglum eru einföld. Hringjandi sími er truflun í tíma. Myndir/hljóðupptökur hafa víða verið upphaf eða liður í einelti. Skóli er vinnustaður nemenda og því er þeim óheimilt að leika sér í tölvum. Nemendur á yngsta stigi og miðstigi eiga að vera úti í frímínútum og því er eðlilegt að dýr tæki séu læst inni í stofu á meðan.

Með góðri kveðju,

Sölvi

3. febrúar

Ný námskrá

Við erum að búa til nýja námskrá. Almennur hluti hennar með alls konar regluverki er kominn á heimasíðuna, en nú erum við að fást við einstaka bekki og einstakar greinar - með það markmið í huga að gera gott betra! Skólastarf fer ekki fram í stökkum ef vel á að vera, heldur koma breytingarnar hægt og sígandi, eitt og annað víkur, annað kemur inn í staðinn. Nýja námskráin er sveigjanlegri en sú gamla að því leyti að nú eiga börn að fá tiltekinn fjölda kennslustunda í ákveðnum greinum, en skólinn getur raðað þeim á bekki í samræmi við áherslur sínar. Jafnframt þessu verður val aukið, t.d. á miðstigi, 5.-7. bekk. Hafa foreldrar áhuga á sérstökum valgreinum? Við munum auka áherslu á lesturinn. Við stöndum vel miðað við marga skóla, en í öryggisskyni verða allir nemendur í 5.-7. bekk lestrarprófaðir til þess að ganga úr skugga um að allir hafi náð tilskilinni færni. Sendið mér athugasemdir og hugmyndir!

Nýtt netfang

Nýja netfangið mitt er This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Við höfum verið að flytja tölvuþjónustu okkar í nýtt fyrirtæki og enn eru nokkrir byrjunarörðugleikar. Þá gerðist það á dögunum að ungur maður austur í Kuala Lumpur hakkaði heimasíðuna okkar í spað og enn eru ekki öll kurl komin þar til grafar. En að mestu leyti hefur síðan verið uppfærð.

Með góðri kveðju, Sölvi