Fréttasafn
Þátttaka Landakotsskóla á Norðurlandamóti grunnskólasveita 2023
Landakotsskóli tryggði sér fyrr á árinu þátttökurétt á hinu fornfræga Norðurlandamóti grunnskóla í skák, með góðum árangri á Íslandsmóti grunnskólasveita. Mótið hefur verið haldið frá því á 8. áratug síðustu aldar og skiptast skáksambönd Norðurlandanna við að halda mótið. Þetta árið var komið að því að Skáksamband Íslands héldi mótið, og keppt var á Laugarvatni í Bláskógabyggð. Þess má geta að það var Ísland sem "startaði" mótinu á sínum tíma, og upprunalegi fáni mótsins var að sjálfsögðu hengdur upp.
Það fór vel um keppendur, liðsstjóra og annað fylgdarfólk í kyrrðinni og náttúrunni við Laugarvatn. Góðar aðstæður voru til taflmennsku í íþróttahúsinu og gist var víða um þorpið. Boðið var upp á morgunmat í húsnæði gamla sveitaskólans og hádegis- og kvöldmat á veitingastaðnum Lindinni. Sumir smelltu sér auk þess á Laugar spa eða í sund milli skáka. Svona er þjónustan við þá sem standa sig vel í skákinni!
Keppt var í flokki undir 13 ára og undir 17 ára. Í eldri flokknum tefldu sex skólar, einn frá Danmörku, Noregi, Svíðþjóð og tveir frá gestgjafaþjóðinni Íslandi. Ásamt Landakotsskóla tefldi Vatnsendaskóli fram sveit í mótinu.
Fyrirfram var stefnan auðvitað sett á verðlaunasæti og ætti það að nást á “pappírunum”. Lokaniðurstaðan var þó sú að okkar efnilega skákfólk þurfti að láta 4. sætið nægja. Ljóst er að skólinn var grátlega nálægt 3. sætinu, en sænska bronssveitin fékk jafnmarga vinninga (10.5) en var ofar á stigaútreikningi. Finnskur skóli hlaut silfrið og í fyrsta sæti varð Giersings Realskole frá Danmörku.
Keppendur Landakotsskóla í mótinu voru þessi ásamt elo-stigum
- borð Adam Omarsson elo 1862
- borð Jósef Omarsson elo 1764
- borð Iðunn Helgadóttir elo 1694
- borð Jón Louie Thoroddsen elo 1147
Öll úrslit mótsins, ásamt einstaklingsúrslitum má sjá á chess-results. Iðunn Helgadóttir stóð sig best, fékk 4. vinninga af 5 og vann til borðaverðlauna fyrir bestan árangur á 3. borði.
Landakotsskóli á chess-results
Þau Adam og Iðunn eru bæði byrjuð í menntaskóla en mótið hefur alltaf verið opið 17 ára og yngri. Þetta var því í síðasta sinn sem þau kepptu á skákmóti fyrir hönd skólans og hafa þau sannarlega staðið sig vel á þeim vettvangi. Jósef bróðir Adams er í 7. bekk og Jón Loie í 6. bekk.
Texti: Gauti Páll Jónsson, skákkennari og liðsstjóri skólans á mótinu